Slímugt grænmeti vinnur á örplasti

Ljósmynd/Thinkstock

Efni úr grænmetinu okru og öðrum slímugum plöntum sem er vanalega notaðar til eldamennsku geta fjarlægt hættulegt örplast úr frárennslisvatni sögðu vísindamenn í dag. Rannsóknin var kynnt á vorfundi American Chemical Society í dag og hún sýnir möguleika á að nota okru í stað gerviefna sem notuð eru í hreinsistöðvum, en gerviefnin geta einnig verið hættuleg heilsu manna.

Betra að nota náttúruleg efni

„Við ættum að vera að nota náttúruleg efni sem eru ekki hættuleg til þess að fjarlægja örplast eða önnur efni,“ sagði leiðandi rannsóknarinnar, Rajani Srinivasan frá Tarleton State háskólanum.

Okra er notuð sem þykkingarefni í matargerð víða um heiminn, til dæmis í réttinum gumbo, sem er eins konar þjóðarréttur New Orleans í Louisiana. Einnig er okra mikið notuð í eldamennsku í Asíu.

mbl.is/Heiddi

Fyrri rannsóknir Rajani Srinivasan hafa sýnt hvernig slímið úr okru og öðrum plöntum geta fjarlægt eiturefni úr textílefnum úr vatni og jafnvel fjarlægt örverur og í nýju rannsókninni vildi hún komast að því hvort það sama gilti um örplast.

Sýnt hefur verið fram á að örplastbútar sem eru fimm millimetrar eða smærri geta verið skaðlegir fiskum sem gleypa agnirnar og m.a. haft áhrif á æxlunarkerfi þeirra, hamlað vexti og valdið lifrarskemmdum.

Örplast líka í matnum sem við borðum

Örplast er afleiðing 8 milljarða tonna plastframleiðslu frá sjötta áratug síðustu aldar, en minna en tíu prósent af því magni hefur verið endurnýtt. Restin brotnar niður í umhverfinu og er nú út um allan hnöttinn, í höfunum, ám, í lofti og jörð, auk þess að vera í matnum sem við borðum.

Talin er þörf á meiri rannsóknum á tengslum örplasts við heilsu manna, en vitað er að örplast getur hugsanlega verið krabbameinsvaldur og haft hugsanlega stuðlað að stökkbreytingu gena.

Hreinsunarefnin geta verið skaðleg

Hefðbundin leið við að vinna á örplasti í vatni er tvíþætt. Annars vegar er allt sem sjáanlega flýtur á yfirborðinu fjarlægt. Þessi hluti er þó aðeins lítið hlutfall efnanna í vatninu. Seinna skrefið er að nota svokölluð flokkunarefni, eða klístrug efni þar sem smærri örplasteiningar festast á og mynda stærri plastköggla, sem falla á botninn og þannig er hægt að fjarlægja þau.  Vandamálið er að flokkunarefnin geta einnig brotnað niður í skaðleg efni sem gætu verið hættuleg heilsu manna.

Vill betra aðgengi að hreinu og öruggu vatni

Því vildu Srinivasan og samstarfsmenn hennar rannsaka náttúruleg efni og þau komust að því að okra og grikkjasmári virkuðu best í sjávarvatni á meðan fjölsykrur úr okra og tamarinda trénu virkuðu best í ferskvatni.

Rannsóknin sýndi að náttúrulegu efnin úr grænmetinu virkuðu jafnvel ef ekki betur en hefðbundnar leiðir. Markmið Rajani Srinivasan er að rannsóknirnar verði virkjaðar í hreinsun vatns svo heimsbyggðin hafi greiðari aðgang að hreinu og öruggu vatni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert