Vlodomír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að úkraínska hernum hafi tekist að setja stóran stein í götu þess rússneska með því að valda honum verulegu tjóni og mannfalli.
Rússneski herinn hefur gefið það út að fyrsta áfanga hernaðaraðgerða hans í Úkraínu sé lokið og að herinn muni nú einbeta sér að Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu. Telja vestrænir embættismenn að tilkynningin bendi til þess að yfirvöld í Rússlandi geri sér grein fyrir því að áætlanir þeirra fyrir stríðið hafi ekki gengið upp.
Aftur á móti telur breska varnarmálaráðuneytið líklegt að Rússar muni halda áfram að beina vopnum sínum að þéttbýli. Er útlit fyrir að rússneski herinn ætli sér að nýta til þess árásir úr lofti og þannig takmarka mannfall innan sinna eigin raða á kostnað frekara mannfalls óbreyttra borgara.
Í yfirlýsingu breska varnamálaráðuneytisins segir ennfremur að rússneskar hersveitir sitji enn um fjölda stórborga í Úkraínu, þar á meðal Karkív, Tsjernív og Maríupol.