Tvö þýsk sambandsríki, Neðra-Saxland og Bæjaraland, hafa lagt bann við því að bókstafurinn Z sé notaður sem tákn á opinberum vettvangi.
Hver sem bregður tákninu á loft við mótmæli, eða málar það á bíla eða byggingar til að sýna stuðning sinn við innrás Rússlands í Úkraínu, gæti átt á hættu sekt eða fangelsisvist til allt að þriggja ára.
Það sem byrjaði sem einfaldur stafur myndaður úr þremur hvítum línum er nú orðið að tákni Úkraínustríðsins og þeirra sem styðja hernaðaraðgerðir Pútíns Rússlandsforseta.
Fyrir herinn táknar zetan á landtækjunum ekkert annað en að viðkomandi sveitir komi úr eystri hersöfnuði rússneska hersins en heima í Rússlandi er zetan orðin að sterku pólitísku tákni.
Andrúmsloftið er að mati sumra fræðimanna farið að minna óþægilega mikið á þá stöðu sem hakakrossinn hafði innan Þriðja ríkis Þýskalands.
Dómsmálaráðherra Bæjaralands, Georg Eisenreich, sagði þegar hann tilkynnti bannið í dag að skoðanafrelsi væri góður kostur. Mörk þess liggi þó þar sem hegningarlög hefjist.