Mevlut Cavusoglu tyrkneski utanríkisráðherrann segir viðræður Rússa og Úkraínumanna, sem fóru fram í Istanbúl í dag, hafa markað eitt mesta framfaraskref frá því að stríð braust út milli landanna tveggja fyrir rúmum mánuði.
Viðræðurnar hefjast aftur á morgun en árangurinn í dag hefur vakið mikla athygli. Samkvæmt upplýsingum frá sendinefnd Rússa hafa þeir samþykkt að draga úr hernaðarumsvifum í norðurhluta Úkraínu.
Þá hafa sendinefndirnar lagt grundvöll að því að forsetar ríkjanna tveggja geti hist augliti til auglitis, en það hafa þeir ekki gert síðan árið 2019 í París.