Vladimír Pútín Rússlandsforseti sakaði úkraínsk stjórnvöld í dag um að standa á bak við „grófar og kaldlyndar ögranir“ í borginni Bútsja þegar hann ræddi við forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban.
Rússnesk stjórnvöld greindu frá þessu.
„Vladimír Pútín upplýsti Orban um stöðu mála varðandi viðræður á milli fulltrúa Rússlands og Úkraínu og greindi honum einnig fá sínu mati á grófum og kaldlyndum ögrunum stjórnvalda í Kænugarði í borginni Bútsja,“ sagði í yfirlýsingu frá Kreml.
Úkraínskir embættismenn og fleiri hafa greint frá því að hundruð almennra borgara hafi fundist látnir í borginni eftir að Rússar yfirgáfu hana. Rússar hafa vísað þessu á bug og sagt þessar fregnir vera áróður Úkraínumanna.