Þóra Birna Ingvarsdóttir
Undankomu- og eigendalaus, ráfa gæludýr um götur Bútsja og Boridianka í Úkraínu.
„Ég held að fólk hafi, í angist sinni, flúið án þess að taka gæludýrin með sér. Svo hefur fólk verið myrt og gæludýrin standa ein eftir,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði.
Hann er nú orðinn hluti af samstöðuhópi aðgerðarsinna sem kalla sig „operation solidarity.“
Um þessar mundir undirbýr hópurinn björgunarleiðangur sem áætlaður er á mánudaginn. „Þá förum við með fullt af mat og svo tökum við einhver dýr til baka og förum með í skýli í Kænugarði.“
Nýlega fór Óskar í ferð til bæjarins Bútsja þar sem hann hitti Svitlönu og Eduard. Þau hafa verið að taka að sér dýr í hverfinu og dreifa matnum til þeirra, en sjálf hafa þau lifað við vatns- og rafmagnsleysi í rúman mánuð og elda mat, sér til handa, á opnum eldi undir berum himni.
Í Kænugarði er staðan svipuð og hún hefur verið að undanförnu. „Borgin hefur ekki orðið fyrir neinu öðru en að tæmast og vígbúast.“ Þá er borgin einnig full af erlendum blaðamönnum.
Óskar segir að stríðið sé í pattstöðu eins og er. „Rússar eru að hlaða upp her til að skera svo á milli norður og suður hluta Úkraínu.“