Menningararfur Úkraínu í hættu

Verið að hlaða sandpokum til að verja menningarverðmæti í Karkív …
Verið að hlaða sandpokum til að verja menningarverðmæti í Karkív 26. mars sl. AFP/Aris Messinis

Hátt í eitt hundrað menningar- og trúarlegar minjar hafa orðið fyrir eyðileggingu frá því innrás Rússa hófst í Úkraínu 24. febrúar kemur fram hjá menningarstofnun UNESCO í dag. Það er tvöfalt hærri tala en stofnunin gaf út fyrir tveimur vikum og hafa menn þungar áhyggjur af menningararfi Úkraínu og langtíma afleiðingum þessa fyrir þjóðina.

„Núna í morgun voru 98 menningarminjar að hluta til eða alveg eyðilagðar í átta héruðum landsins og talan fer yfir 100 á morgun eða föstudag,“ sagði Lazare Eloundou Assomo forstjóri heimsmenningarminjaráðs UNESCO í viðtali við AFP-fréttastofuna.

AFP/Sergei SUPINSKY

Hann sagði að eyðileggingin næði til minja frá fyrri hluta miðalda og allt að bygginga sem eru þekktar sem kenntileiti sovéskrar byggingarlistar. „Fjöldi eyðilagðra minja fer hækkandi,“ varaði hann við og bætti við að núna fyrst væri hægt að koma og skoða eyðilegginguna á sumum svæðum, en óvissa ríki um stöðuna á verstu bardagasvæðunum.

„Það mun taka langan tíma að endurbyggja sumar þessara minja og aðrar eru horfnar að eilífu því ekki mun vera hægt að endurbyggja þær.“

Brot á alþjóðalögum

Hann benti á að samkvæmt alþjóðlegum lögum er bannað í stríði að ráðast gegn byggingum með Bláum skildi UNESCO, sem gefur til kynna að byggingin sé hluti af menningarverðmætum landsins, og slíkar árásir falli undir stríðsglæpi.

UNESCO notar gervihnattamyndir og frásagnir vitna af vettvangi til að staðfesta upplýsingar frá úkraínskum stjórnvöldum. Engar minjar sem staðfest hefur verið að séu eyðilagðar eru á lista Heimsmenningarminjaráðs UNESCO, eins og Saint-Sophia dómkirkjan og klausturbyggingar Kiyev-Pechersk Lavra í Kænugarði. Hins vegar er sögulegur miðbær borgarinnar Tjernígiv á lista stofnunarinnar yfir menningarverðmæti sem þyrfti að vernda.

„Sjö minjar sem nú þegar eru skráðar hjá okkur hafa enn ekki orðið eyðileggingu að bráð samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum,“ sagði Assomo.

Audrey Azoulay forstjóri UNESCO, en samtökin hafa miklar áhyggjur af …
Audrey Azoulay forstjóri UNESCO, en samtökin hafa miklar áhyggjur af eyðileggingu menningarverðmæta í Úkraínu. AFP/OEL SAGET

Í bréfi dagsettu 17. mars sl. frá forstjóra UNESCO Audrey Azoulay til Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er bent á skyldur landa í stríði að vernda menningarverðmæti þjóða samkvæmt alþjóðlegum lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert