Robert Habeck varakanslari Þýskalands hefur biðlað til þýsks almennings um að minnka orkunotkun og takmarka akstur bifreiða svo að Þýskaland geti hætt eða minnkað innflutning á rússnesku jarðgasi og olíu.
„Ef þið getið tekið lestir eða hjólað yfir páskana, þá er það gott: það er betra fyrir veskið og pirrar Pútín,“ sagði Habeck, sem gegnir einnig embætti fjármálaráðherra.
Þýskaland hefur hingað til ekki viljað stöðva innflutning á rússneskum orkugjöfum þrátt fyrir ákall annarra ríkja Evrópu og ekki síður Úkraínu.
Um 40% af jarðgasi og 25% af olíu sem Þýskaland flytur inn kemur frá Rússlandi. Hagfræðingar hafa varað við því að skyndileg stöðvun á innflutningi rússneskra orkugjafa gæti leitt til efnahagskreppu í þessu stærsta hagkerfi Evrópu fyrir næsta ár.
Olaf Scholz, Þýskalandskanslari, hefur gefið í skyn að mögulegt væri að hætta innflutningi á rússneskum orkugjöfum fyrir árslok. Málið er umdeilt innan þýsku ríkisstjórnarinnar og þykir sumum um leiðtogaleysi af hálfu Þýskalands að ræða.