Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætlar ekki að fara til Kænugarðs að svo stöddu þrátt fyrir að Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, hafi hvatt Biden að koma til landsins og sýna Úkraínumönnum stuðning í baráttunni gegn Rússum.
„Það hafa engar áætlanir verið gerðar þess efnis að forsetinn fari,“ sagði Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, í dag.
Þó nokkrir leiðtogar Evrópuríkja hafa hitt Selenskí, meðal annars Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Mun flóknara væri að senda Biden til landsins af öryggisástæðum og þess í stað verða Antony Blinken utanríkisráðherra eða Lloyd Austin varnarmálaráðherra sendir í stað forsetans.
Í síðustu viku sagði Biden að enn ætti eftir að ákveða hvort hann færi en sagði það þó ekki vera útilokað.
Þá sagði Psaki að von væri á að sendiráð Bandaríkjanna í Kænugarði yrði opnað aftur, hún gaf þó ekki svör um hvenær það yrði.