Dómari í Flóridafylki Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að grímuskylda sóttvarnayfirvalda (CDC) í flugvélum og öðrum almenningssamgöngum sé ólögmæt.
Þetta kemur fram í frétt CNN.
Dómarinn sem kvað upp dóminn heitir Kathryn Kimball Mizelle, en hún var skipuð í embætti á valdatíð Donald Trump.
Er það niðurstaða hennar að það fari út fyrir valdheimildir sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna að kveða á um svo íþyngjandi takmarkanir, enda hafi þær í för með sér verulegar skerðingar á ferðafrelsi borgaranna.
Í síðustu viku framlengdi sóttvarnastofnunin grímuskylduna til þriðja maí, vegna skyndilegrar aukningar í smitum, en sóttvarnastofnunin vill hindra útbreiðslu smita uns frekari upplýsingar fást um afbrigðið að baki smitbylgjunni.