Lögreglan í Svíþjóð segir óeirðirnar sem þar hafa staðið yfir síðustu fjóra daga, hafa lítið með mótmæli að gera og að frekar megi rekja upptök þeirra til glæpagengja. Býr hún yfir upplýsingum um að hvatt hafi verið til ofbeldis gegn sænsku lögreglunni og að óeirðirnar hafi verið skipulagðar frá útlöndum. Þetta kemur fram á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT.
Á blaðamannafundi fyrr í dag fordæmdi lögreglan óeirðirnar en mótmælendur hafa m.a. kastað steinum og kveikt í bílum. Búið er að handtaka að minnsta kosti 26, átta í Norrköping og átján í Linköping.
Fram hefur komið að átökin megi rekja til mótmæla vegna áforma hægri öfgaflokksins Stram Kurs um að brenna eintök af Kóraninum. Lögreglan sagði þó í dag lítil tengsl vera milli óeirðanna og mótmælanna.
Alls hafa um 14 mótmælendur særst, þar af þrír þegar lögreglan í Norrköping skaut viðvörunarskotum. Þá hafa að minnsta kosti 26 lögreglumenn særst, stór hluti þeirra í Stokkhólmi og Malmö.
„Þetta er gróft ofbeldi. Þetta eru ekki venjulegir mótmælendur, við höfum sterkan grun um að þeir sem ráðist á lögreglu og björgunarsveitir séu tengdir glæpagengjum,“ sagði Anders Thornberg ríkislögreglustjóri í dag.
„Þetta hefur ekkert með mótmæli að gera, þetta er óafsakanleg árás á réttarsamfélagið okkar og lýðræðið,“ bætti hann við.
Að sögn Thornberg þekkir lögreglan marga af þeim sem hafa tekið þátt. Hann segir mótvægisaðgerðir nú í undirbúningi og telur hann mögulegt að grípa þurfi til ofbeldis.
„Við höfum lengi sagt að það ríki mjög alvarlegt ástand vegna glæpa í landinu. Það sem við höfum séð undanfarna daga eru alvarleg einkenni umfangsmikils vandamáls.“
Mikil eyðilegging hefur fylgt óeirðunum síðustu daga. Hafa margar bifreiðar eyðilagst, þar af 20 lögreglubílar.
Þá var kveikt í grunnskóla í Rosengard-hverfinu skömmu eftir miðnætti og eyðilagðist ein af byggingum skólans.
Skólastjórnendur vinna nú hörðum höndum að því að finna tímabundið húsnæði svo kennsla geti haldið áfram að páskafríi loknu.