Rússar hafa ítrekað kröfur sínar um að úkraínskar hersveitir í hafnarborginni Maríupol leggi tafarlaust niður vopn og hætti „heimskulegri mótspyrnu“ sinni í borginni, sem er umsetin af Rússum. Þá hafa Rússar sett fram nýja afarkosti. AFP-fréttastofan greinir frá.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur komið þeim skilaboðum til yfivalda í Kænugarði „að þau verði að hugsa rökrétt og gefa hermönnum fyrirmæli um að hætta heimskulegri mótspyrnu.“ Þá var tekið fram að ef að úkraínskir hermenn í Maríupol legðu niður vopn um hádegi í dag þá yrði tryggt að þeir héldu lífi.
Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, hefur hins vegar sagt að úkraínskir hermenn muni berjast til endaloka í Maríupol.
Ástandið í Maríupol hefur verið afar slæmt síðustu vikur þar sem ekkert rennandi vatn eða rafmagn er til staðar og matvæli af skornum skammti.