Segir Trump hafa labbað út úr viðtali

Piers Morgan greinir frá þessu í grein í New York …
Piers Morgan greinir frá þessu í grein í New York Post. AFP

Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan segir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hafa labbað út úr óbirtu viðtali sem hann tók við hann. Til stendur að birta viðtalið 25. apríl.

Morgan greinir frá því að stuttu áður en viðtalið átti að hefjast hafi einhver sent Trump samansafn af ljótum athugasemdum sem að hann hafi látið falla um Trump síðustu tvö ár. 

„Sá sem sendi þetta vissi nákvæmlega hvað hann var að gera,“ segir Morgan.

Hann segir Trump hafa verið ævareiðan og óttaðist Morgan um að hann myndi hætta við viðtalið. 

Morgan heldur því fram að Trump hafi meðal annars sagt: „Þetta er svo óheiðarlegt. Eftir allt sem ég hef gert fyrir þig? Af hverju myndirðu segja allt þetta um mig?“

Ræddu transfólk í íþróttum

Að lokum segir Morgan að Trump hafi ákveðið að veita honum viðtalið. Þeir hafi meðal annars rætt ástandið í Úkraínu, Pútín, Kim Jong Un, Twitter, Biden og transfólk í íþróttum.

Morgan segir viðtalið hafi gengið vel fyrir sig þangað til að hann spurði hann út í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020 þegar Trump laut í lægra haldi fyrir Biden. Þá hafi Trump misst stjórn á skapinu sínu og viljað binda enda á viðtalið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert