Rússar fengu vopn frá tíu ríkjum ESB

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olaf Scholz kanslari Þýskalands.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olaf Scholz kanslari Þýskalands. AFP

Frakkland og Þýskaland seldu Rússum hergögn fyrir tæplega 300 milljónir bandaríkjadala þrátt fyrir viðskiptabann á árunum 2015 til 2020.

Greinandi hjá Evrópusambandinu telur líklegt að þau séu nú í notkun í innrás Rússa í Úkraínu, Telegraph greinir frá.

Hergögn á borð við sprengjur, flugskeyti og riffla hafa verið flutt ítrekað til Rússlands frá löndum innan sambandsins þrátt fyrir viðskiptabann sem komið var á árið 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga.

Mynd frá Úkraínu.
Mynd frá Úkraínu. AFP

Vaxandi óánægja í Austur-Evrópu

Evrópusambandið neyddist í mánuðinum til að loka glufu í lögunum sem gerði þjóðum kleift að senda hergögn til Rússlands.

Það var ekki fyrr en 8. apríl, tæpum einum og hálfum mánuði eftir að innrásin hófst, sem glufunni var lokað og var það gert vegna vaxandi óánægju Eystrasaltsríkjanna og landa í Austur-Evrópu.

Tíu lönd innan sambandsins hafa flutt hergögn til Rússlands á tímabilinu fyrir um 380 milljónir dala.

Eins og áður var nefnt hafa það aðallega verið Frakkar og Þjóðverjar sem hafa staðið fyrir þessum gríðarlega útflutningi hergagna.  

Yfirvöld í Þýskalandi hafa varið ákvörðun sína og segja að öll hergögn sem flutt hafa verið til Rússlands hafi aðeins verið ætluð fyrir notkun almennra borgara og ekki til þess að efla herafla Rússa. Þau ítrekuðu að ef einhver teikn hefðu verið á lofti að hergögnin væru notuð af Rússlandsher hefðu þau samstundis hætt útflutningi gagnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert