Segir tap í kosningunum „glæstan sigur“

Marine Le Pen ávarpaði stuðningsfólk sitt í kvöld.
Marine Le Pen ávarpaði stuðningsfólk sitt í kvöld. AFP

Marine Le Pen leiðtogi öfgahægrisinna í Frakklandi sagði tap sitt í úrslitaeinvígi forsetakosninganna í Frakklandi vera „glæstan sigur“ fyrir sig og flokk sinn. Allt bendir til þess að Macron hafi fengið um 58% atkvæða í kosningunum og Le Pen um 42%. 

Sigur Macron var þó mun naumari en í einvígi þeirra árið 2017, þegar Macron hlaut rúmlega 66% atkvæða. 

Í ræðu sinni í kvöld hét Le Pen því að halda stjórnmálaferli sínum áfram og sagðist hún aldrei munu yfirgefa frönsku þjóðina. 

„Hugmyndirnar sem við stöndum fyrir hafa náð nýjum hæðum. Þessar niðurstöður endurspegla útaf fyrir sig glæstan sigur,“ sagði Le Pen við stuðningsfólk sitt. 

Le Pen sagðist þá líta björtum augum til komandi þingkosninga í landinu sem fram fara í júní.

Emmanuel Macron og kona hans Brigitte Macron gátu fagnað í …
Emmanuel Macron og kona hans Brigitte Macron gátu fagnað í París í kvöld. AFP

Vill finna lausn við reiði kjósenda

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í ræðu sinni í kvöld í kjölfar endurkjörsins að hann myndi gera það að forgangsmáli sínu að finna svör við reiði kjósenda sem kusu Le Pen í kosningum dagsins. Hét forsetinn því að komandi kjörtímabil verði ekki óbreytt áframhald frá síðasta kjörtímabili. 

„Við þurfum að finna svör við reiði og ósætti sem leiddi til þess að margir af okkar samlöndum kusu öfga-hægrið. Það verður á minni ábyrgð og á ábyrgð þeirra sem eru í kringum mig,“ sagði Macron við stuðningsfólk sitt sem safnaðist saman fyrir framan Eiffel-turninn í Parísarborg. 

Þá boðaði Macron nýja öld í frönskum stjórnmálum og að nýtt kjörtímabil verði ekki „áframhald á því kjörtímabili sem líður nú undir lok“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert