Enn er hægt að leigja VHS-spólur

Er langt síðan þú leigðir VHS-spólu?
Er langt síðan þú leigðir VHS-spólu? mbl.is/Bjarni J. Eiríksson

Fyrirtækið 20th Century Flicks í Bristol á Englandi fagnar á árinu fjörtíu ára afmæli. Hvers vegna þykir í frásögu færandi að fyrirtæki nái fjörtíu ára starfstíma? 

Jú, starfsemi þessa fyrirtækis er ekki algeng núorðið og eflaust óhætt að segja að slík starfssemi sé einfaldlega orðin mjög sjaldgæf. 

20th Century Flicks er einfaldlega gömul og góð videóleiga en lifir af einhverjum ástæðum enn ágætu lífi þá fyrir breytt neyslumynstur hjá kvikmyndaáhugafólki. Hún opnaði árið 1982 í Bristol og starfar enn með svipuðum formerkjum að mestu leyti. 

Ekki er nóg með að leigan bjóði upp á gott úrval af myndum á DVD heldur er ennþá hægt að leigja þar myndir á VHS-spólum. Svo virðist sem íbúar í Bristol og nágrenni eigi enn VHS-tæki sem þjóni sínum tilgangi. 

Leigan hefur lifað af alls kyns samkeppni í gegnum áratugina við kvikmyndahús, sjónvarpsstöðvar, streymisveitur og fleira sem á einhverjum tímapunkti hefur átt að gera videoleigum erfitt fyrir á síðustu fjórum áratugum. 

Dave Taylor er einn af eigendum leigunnar og hefur afgreitt viðskiptavini þar í tvo áratugi. Engan bilbug var á honum að finna þegar The Guardian tók hann tali. 

„Eftirspurnin hefur breyst mjög á þessum tíma en það er enn eftirspurn eftir okkar vöru. Fólk kann vel að meta þá þjónustu sem við bjóðum upp á og kvikmyndaáhugi er mikill hjá íbúum Bristol. Í það minnsta eru nægilega margir í borginni sem vilja sjá það efni sem við höfum upp á að bjóða.“ 

Úrvalið af kvikmyndum á leigunni er veglegt og í þeim skilningi mætti halda því fram að hún slái streymisveitum við en yfir 20 þúsund titlar eru í boði. Þar eru kvikmyndir héðan og þaðan úr heiminum þar má finna myndir frá því um miðja 20. öldina.

Einnig eru tveir litlir salir í húsakynnum leigunnar, annar fyrir átta manns og hinn fyrir tíu manns. Þessa sali er sem sagt hægt að leigja hópum fyrir kvikmyndasýningar. 

Skráðir viðskiptavinir eru 92 þúsund en um tvö hundruð manns eru fastakúnnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert