Emmanuel Macron, forseti Frakklands, fékk rétt rúmlega 90% atkvæða sem greidd voru hjá franska sendiráðinu hér á landi í forsetakosningunum sem fram fóru í gær. Marine Le Pen, mótframbjóðandi Macrons í seinni umferð kosninganna, hlaut tæplega 10% atkvæðanna sem greidd voru hér á landi. Sendiráðið greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
Þetta er talsverð sveifla frá því í fyrstu umferð sem fór fram fyrir tveimur vikum, en þá hafði Jean-Luc Mélenchon, frambjóðandi vinstri flokksins í Frakklandi, fengið tæplega helming atkvæða sem greidd voru hér á landi. Macron fékk þá um 23% og Le Pen rúmlega 2%.
Samtals greiddu 295 atkvæði hjá sendiráðinu í fyrri umferð kosninganna en 281 í seinni umferðinni. Í þeirri seinni fékk Macron 253 atkvæði en Le Pen 28 atkvæði.
Í fyrri umferðinni fékk Mélenchon sem fyrr segir flest atkvæði hér á landi, eða 133 og Macron næst flest, með 68. Þar á eftir kom Yannick Jadot, umhverfissinni og þingmaður á Evrópuþinginu, með 40 atkvæði, og Anne Hidalgo, frambjóðandi Sósíalistaflokksins og borgarstjóri Parísar með 13 atkvæði. Éric Zemmour, öfga hægri maður, var með 12 atkvæði. Le Pen og Jean Lassalle, frambjóðandi á miðjunni, fengu svo bæði 7 atkvæði hér á Íslandi.