Richard Shirreff, fyrrverandi aðstoðar-yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins, segir ummæli ráðamanna í Bretlandi um nauðsyn þess að koma Rússum frá Úkraínu þau einu réttu í stöðunni.
Bæði varnarmála- og utanríkisráðherra Bretlands létu hafa eftir sér í gærkvöldi að hrekja þyrfti Rússa frá Úkraínu.
Í samtali við BBC sagði Shirreff eina leiðin til að mæta Vladimír Pútín Rússlandsforseta væri af hörku.
Hann varaði við því að Pútín gæti brugðist harkalega við en nauðsynlegt væri að sýna fram á að vesturlöndum væri alvara með orðum sínum.
„Versta útkoman er stríð við Rússland. Með því að búa sig undir verstu útkomuna er líklegast að takist að halda Pútín í skefjum, því Pútín virðir styrk,“ sagði Shirreff.