Kína hefur á undanförnum rúmum áratug orðið að efnahagsstórveldi undir merkjum lenínísks kapítalisma, þó sumir hafi dregið í efa að stoðir þess séu nógu sterkar og aðrir bent á innri veikleika þess að koma á þróttmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi með tilskipanavaldi. Nú bendir æ fleira til þess að þeir hafi haft rétt fyrir sér.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur öll völd í hendi sér í þessu fjölmennasta ríki heims og frekar hert tökin á taumunum en hitt. Það felur hins vegar í sér hefðbundin vandamál allrar miðstýringar, sérstaklega þegar eitthvað fer úrskeiðis.
Í merkilegri og umtalaðri ritgerð kínverska utanríkismálasérfræðingsins Hu Wei, sem birt var í upphafi mars og látin hverfa nokkrum dögum síðar, var fjallað um stöðu Kína í breyttum heimi. Þar var talsvert fjallað um hvernig innrás Pútíns í Úkraínu hefði mistekist og að það hefðu verið mikil mistök hjá kínverskum stjórnvöldum að leggja blessun sína yfir hana. Hu sagði að Kínverjar ættu að falla frá tálsýn sinni um að Vesturlönd væru í hnignun og að við blasti nýr heimur harðstjórna. Hann sagði að falla ætti frá öllum stuðningi við Pútín, sem væri minnipokamaður, og reyna að friðmælast við Bandaríkin. Áhrifamáttur Vesturlanda væri að aukast, Atlantshafsbandalagið að stækka og áhrif Bandaríkjanna utan hins vestræna heims myndu eflast.
Þrátt fyrir að Hu hafi skrifað ritgerðina út frá stríðinu í Úkraínu, þá á einræðisstjórnin í Peking við brýnni vanda að etja, sem hann hefur vafalaust haft í huga án þess að óhætt væri að fjalla um það. Það er sú staðreynd að Kína er enn í heljargreipum heimsfaraldurs, sem víðast annars staðar er í rénun.
Nú sæta 45 borgir í Kína með 373 milljónum íbúa einhvers konar útgöngubanni, en þar fara að öðru jöfnu fram um 40% landsframleiðslunnar. Þar á meðal er Shanghai, fjármálamiðstöð landsins og þriðja fjölmennasta borg heims. Útgöngubannið er ekki að ná tilætluðum árangri gegn ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar, en á hinn bóginn hefur það hrikalegar efnahagsafleiðingar. Xi virðist samt ekki ætla að láta sig, telur sjálfsagt að álitshnekkir sinn yrði of mikill. Og svo er hitt, að hann getur lítið annað gert en að skipa þjóðinni að loka sig inni og loka landinu fyrir umheiminum. Kínversku bóluefnin hafa ekki reynst vel og þar fyrir utan eru um 40% fólks yfir sextugu ekki fullbólusett. Í mars dóu um 300 manns á dag af völdum veirunnar í Hong Kong, en ef sú yrði raunin um allt Kína mætti búast við að tæpar tvær milljónir myndu deyja á mánuði.
Afleiðingar sóttvarnaráðstafana Xi eru farnar að koma í ljós, en landsframleiðslan dróst saman um 3,2% í mars einum og er nú svipuð og hún var 2019.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.