Rússar rufu lofthelgi Finna

Herþyrla af gerðinni Mi-17.
Herþyrla af gerðinni Mi-17.

Rússnesk herþyrla rauf finnska lofthelgi í morgun samkvæmt finnska varnarmálaráðuneytinu.

Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins tjáði AFP að þyrlan væri af gerðinni Mi-17 og hafi farið fjóra til fimm kílómetra inn í finnska lofthelgi.

Er þetta í annað skiptið sem Rússar fljúga óboðnir inn í lofthelgi Finna á þessu ári en í báðum tilfellum hefur það gerst eftir að innrásin í Úkraínu hófst.

Finnar velta nú fyrir sér að ganga í NATO en eftir að stríðið braust út í Úkraínu hefur stuðningur almennings í Finnlandi við aðild að NATO aukist umtalsvert. Sérfræðingar í alþjóðastjórnmálum hafa lýst þeirri skoðun sinni að Rússar muni hafa afskipti af því með einhverjum hætti ef Finnland sækir um aðild að NATO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert