Stjórnvöld í Úkraínu hafa greint frá því að þau hafi bjargað síðustu hermönnunum út úr Asovstal-verksmiðjunni í Maríupol í morgun.
Áður hefur hundruðum hermanna verið bjargað úr verksmiðjunni í fyrri aðgerðum.
Stálverksmiðjan er löngu orðin táknmynd seiglu og úthalds Úkraínumanna, þar sem um sex hundruð hermenn dvöldu neðanjarðar svo vikum skipti. Þeir neituðu að gefast upp og þar með að gefa öll völd yfir hinni mikilvægu hafnarborg til rússneska innrásarhersins.
Í gær var yfir 260 hermönnum komið örugglega frá verksmiðjunni í gegnum flóttaleiðir á svæði sem eru undir stjórn aðskilnaðarsinna. Varnarmálaráðuneyti Úkraínu annast aðgerðirnar sem eru svokallaðar „skipti-aðgerðir“ að þeirra sögn.
„Stjórnvöld okkar vinna nú að nauðsynlegum björgunaraðgerðum fyrir þá varnarliða sem enn eru á Asovstal-svæðinu,“ segir í Telegram skilaboðum frá varnarmálaráðuneytinu.