Twitter í stríð gegn falsfréttum

Twitter var nú þegar búið að takmarka möguleika Vladimír Pútín …
Twitter var nú þegar búið að takmarka möguleika Vladimír Pútín til miðlunar í gegnum eigin reikning. Samsett mynd

Falsfréttir, um stríðið í Úkraínu, frá Twitter reikningum með stóran fylgjendahóp, líkt og ríkismiðlar eða stofnanir, verða sérstaklega merktar til þess að stemma stigu við upplýsingaóreiðu.

Í frétt BBC er greint frá fyrirætlunum Twitter sem lúta að því að innleiða sérstaka krísu-skilmála vegna síaukinnar upplýsingaóreiðu er varðar stríðið í Úkraínu.

Twitter er nú þegar búið að takmarka færslur frá 300 reikningum rússneskra embættismanna, meðal annars reikningi Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. 

Sporna við dreifingu

Með þeim reynir Twitter að sigla milli skers og báru, þannig að tjáningarfrelsi sé virt samhliða aðgerðum til að sporna gegn miðlun falsfrétta. 

Færslur sem innihalda falsfréttir um stríðið verða huldar, þannig að notendur geta ekki lesið þær nema með því að lesa fyrst skilmála sem vara við því að um áróður eða falsfrétt sé að ræða. 

Þá mun Twitter einnig aftengja möguleikann á að bregðast við slíkum færslum með því að líka við þær eða deila þeim. 

Að auki mun Twitter endurstilla leitarkerfi sitt þannig að unnt sé að forðast að fólk fái upp falsfréttarfærslur. 

Mun ná yfir fleiri málefni

Yfirmaður öryggismála hjá Twitter segir að þó fyrstu útgáfa krísu-skilmálanna sé sérstaklega beint að fréttum vegna stríðsins í Úkraínu, hafi fyrirtækið í hyggju að uppfæra skilmálana og láta þá ná yfir fleiri málefni með tíð og tíma. 

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kom fram að dæmi væru um að skaðlegar færslur innihaldi ásakanir um stríðsglæpi, rangar upplýsingar um aðgerðir alþjóðasamfélagsins og villandi staðhæfingar um beitingu vopna. 

Twitter mun treysta á fjölbreyttan hóp heimilda til þess að komast til botns í því hvort viðkomandi færsla innihaldi villandi eða rangar upplýsingar. 

Afdráttarlausar athugasemdir einstaklinga eða frásagnir frá fyrstu hendi, verða ekki ritskoðaðar á grundvelli krísu-skilmálanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka