Dómstóll í Úkraínu hefur dæmt 21 árs rússneskan hermann í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt óbreyttan borgara í fyrsta réttarhaldi úkraínskra yfirvalda vegna stríðsglæpa af hálfu rússneska hersins í Úkraínu.
Vadím Shishimarín, liðþjálfi frá Irkutsk í Síberíu, var fundinn sekur um að hafa skotið til bana 62 ára óvopnaðan karlmann á hjóli nærri þorpinu Tjúpakívka í austurhluta Úkraínu, fjórum dögum eftir innrásina í febrúar.
Shishimarín viðurkenndi að hafa skotið manninn, Oleksandr Shelipov, en sagði að hann hefði verið að fylgja skipunum og bað ekkju Shelipov afsökunar.
Fjöldi annarra meintra stríðsglæpa eru til rannsóknar í Úkraínu.
Stjórnvöld í Rússlandi neita því að þarlendir hermenn hafi ráðist að óbreyttum borgurum en Úkraínumenn segja þá hafa framið meira en 11 þúsund stríðsglæpi.