„Staðan í austri er sérstaklega erfið vegna þess að örlög landsins ráðast mögulega þar í þessum töluðu orðum,“ sagði Oleksandr Morusjanik, talsmaður varnarmálaráðuneytis Úkraínu, við Reuters.
Rússneskar hersveitir hafa að undanförnu einbeitt sér sérstaklega að Donbas-svæðinu í suðausturhluta Úkraínu. Nú vinna þær að því að ná á vald sitt héruðunum Dónetsk og Lúhansk sem eru í Donbas en þar halda aðskilnaðarsinnar til.
Þær hafa þegar tekið völdin í þremur bæjum í Dónetsk, þar á meðal í bænum Svitlodarsk, að sögn svæðisstjórans Pavlo Kyrylenko.
Þá stefna hersveitirnar sömuleiðis á að umkringja úkraínska hermenn í nágrannaborgunum Sievierodónetsk og Lísisjansk sem liggja sitt hvoru megin við Dónets-ána. Hersveitirnar nálgast borgirnar nú úr þremur ólíkum áttum.
Motusjanik segir að rússneskar hersveitir hafi ekki gefist upp á því að reyna að komast yfir ána.