Rússnesk fyrirtæki stytta vinnutíma starfsfólks

Kamaz hefur stytt vinnutíma hjá 5.500 starfsmönnum sínum vegna varahlutaskorts.
Kamaz hefur stytt vinnutíma hjá 5.500 starfsmönnum sínum vegna varahlutaskorts. FRANCK FIFE

Rússneski vörubílaframleiðandinn Kamaz hefur stytt vinnutíma hjá 5.500 starfsmönnum sínum vegna varahlutaskorts. Skorturinn stafar af refsiaðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Vinnuvika stjórnenda, sérfræðinga og annarra starfsmanna fyrirtækisins hefur verið stytt niður í þrjá daga. Segir starfsmannastjóri fyrirtækisins að öllu starfsfólki bjóðist tímabundin ráðning sem muni halda þeim á launaskrá án þess að lækka í launum.

Efnahagur Rússlands hefur orðið fyrir höggi vegna refsiaðgerðanna og hafa mörg fyrirtæki þurft að stytta vinnutíma starfsfólks en launalækkanir hafa yfirleitt fylgt í kjölfarið.

Um 40.000 starfsmenn hjá fremsta bílaframleiðanda Rússlands, AvtoVaz, voru settir í leyfi í byrjun apríl sem á að standa til 6. júní hið minnsta.

AvtoVaz var þar til fyrr í þessum mánuði í meirihlutaeigu franska bílaframleiðandans Renault en fyrirtækið ákvað að draga sig út úr Rússlandi og seldi hlut sinn í AvtoVaz til rússneska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka