Hörðustu refsiaðgerðirnar til þessa

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið hefur formlega samþykkt bann við meirihluta innflutnings á rússneskri olíu. Þetta eru hörðustu refsiaðgerðir sem sambandið hefur sett gegn Rússlandi síðan þeir réðust inn í Úkraínu í febrúar.

Nýjustu refsiaðgerðirnar fela einnig í sér að neita Sberbank, stærsta banka Rússlands, um aðgang að alþjóðlega greiðslukerfinu, SWIFT.

Þá var Alína Kabaeva, meint kærasta Vladimírs Pútín forseta Rússlands, einnig sett á svartan lista yfir eignafrystingar og vegabréfsáritunarbann, ásamt rússneskum hermönnum sem grunaðir eru um stríðsglæpi í úkraínska bænum Bútsja.

Olía flutt með leiðslum er undanþegin

Leiðtogar ESB samþykktu að beina spjótum sínum að olíuútflutningi Rússlands eftir margra vikna mótspyrnu frá Ungverjalandi. Fallist var á kröfu Viktors Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, um að olía sem flutt er með leiðslum frá Rússlandi skyldi undanþegin banninu.

Refsiaðgerðirnar ná yfir tvo þriðju hluta rússneska olíuútflutningsins sem er fluttur með skipum.

Þýskaland og Pólland hafa ennfremur skuldbundið sig til að hætta að fá olíu með leiðslum. Það er því gert ráð fyrir að um 90% af innflutningi ESB á rússneskri olíu verði stöðvaður í lok ársins.

Til að koma í veg fyrir að Ungverjaland og aðrar þjóðir, sem enn munu fá rússneska olíu í gegnum leiðslur hagnist á undanþágunni, er bannað selja ódýrari birgðir.

Hefta getu Rússlands til að selja utan ESB

ESB hefur einnig reynt að hefta getu Rússlands til að selja olíuna utan sambandsins með því að banna fjármálastofnunum að tryggja og fjármagna skip sem flytja hana til þriðju landa.

Evrópusambandið flutti inn meira en fjórðung af olíu sinni frá Rússlandi fyrir stríðið og hefur verið sakað um að hafa ekki unnið nógu hratt til að stöðva fjármuni sem streyma til Rússlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert