Handteknir fyrir að heilsa að sið nasista

Margir Englendingar hafa lagt för sína til München til að …
Margir Englendingar hafa lagt för sína til München til að fylgjast með enska landsliðinu í fótbolta keppa á móti Þýskalandi. AFP

Nokkrir stuðningsmenn enska landsliðsins í knattspyrnu voru handteknir í dag í München Þýskalandi eftir að hafa heilsað að nasistasið fyrir leik Þýskalands og Englands í Þjóðadeildinni sem fer fram í kvöld klukkan 18:45. 

Stuðningsmennirnir voru handteknir í miðbæ München á meðan þeir voru að hita upp fyrir leikinn en það er bannað lögum samkvæmt í Þýskalandi að heilsa að nasista sið.

Þetta er ekki eina atvikið þar sem kalla þurfti til lögreglu vegna athæfi stuðningsmanna Englands en fyrr í dag var lögreglan í München  kölluð til tvisvar til að stilla til friðar í einum af frægustu bjórkjöllurum borgarinnar. Þar voru samankomnir 300 Englendingar sem voru að valda óróa. 

Þar að auki þurfti slökkviliðið í München  að fara í fýluferð að hóteli í miðri borginni vegna þess að enskur stuðningsmaður hafði kveikt á blysi í glugga hótelherbergi síns sem varð til þess að brunavarnarkerfið fór í gang.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert