Búum okkur undir fleiri smitsjúkdóma frá dýrum

Fólksfjölgun, aukin búfjárrækt og inngrip í áður óbyggð svæði eru …
Fólksfjölgun, aukin búfjárrækt og inngrip í áður óbyggð svæði eru allt atriði sem hafa ýtt undir smit milli manna og dýra. AFP

Mannkynið gæti átt von á fleiri smitsjúkdómum úr dýrum á næstu árum, sem gætu orðið að stórum faröldrum. Þetta óttast sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Þegar sjúkdómar smitast milli dýra og manna, kallast þeir súnur (e. zoonosis). Slíkir sjúkdómar hafa þekkst frá því á þúsöld en þeim hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. 

Dæmi um súnur eru HIV, Ebóla, SARS, MERS, fuglaflensan og svarti dauði. Alþjóðheilbrigðisstofnunin rannsakar nú uppruna Covid-19 sjúkdómsins, en ýmislegt er talið benda til þess að um súnu sé að ræða. Apabólan er svo enn eitt dæmið um sjúkdóm af þessu tagi. 

Flestir sjúkdómar koma frá dýrum

Yfirmaður neyðarmála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Michael Ryan, segir að núverandi þróun á umgengni manna og dýra skapi aukin tækifæri fyrir sjúkdóma að smitast þar á milli. Það sé til þess fallið að auka líkurnar á verulegri útbreiðslu meðal mannfólks, og stökkbreytinga. 

Sextíu prósent af öllum þekktum sjúkdómum sem hrjáð hafa mannfólk, eru komnir frá dýrum, en sjötíu og fimm prósent af öllum nýlegum sjúkdómum. 

Fólksfjölgun, aukin búfjárrækt og inngrip í áður óbyggð svæði eru allt atriði sem hafa ýtt undir smit milli manna og dýra. Þá er þetta einnig angi af hlýnun jarðar, en ýmsar mikilvægar dýrategundir sem héldu tilteknum sjúkdómum í skefjum hafa dáið út, að sögn Benjamin Roche, sérfræðings í súnum við frönsku rannsóknarþróunarstofnunina.

Villt dýr hafa þurft að yfirgefa heimkynni sýn, ónæmiskerfi þeirra veikjast og þau búa nú í meira návígi við byggð manna. Þá komast þau einnig í snertingu við húsdýr og gæludýr, sem smiti svo eigendur sína. 

Þurfum aukið eftirlit

„Við þurfum að snarauka eftirlit með bæði villtum dýrum og hús- eða gæludýrum, svo við getum komið auga á og greint það þegar smitsjúkdómur hefur stokkið frá einni dýrategund til annarrar, og svo hvort hún sé þá að finna í návígi við byggð manna.“

Eric Fevre, sérfræðingur í smitsjúkdómum við háskólann í Liverpool og alþjóðlegu búfjárræktarrannsóknarstofnunina í Kenía, segir að við þurfum að búa okkur undir að taka á móti fjölda nýrra, mögulega hættulegra, smitsjúkdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert