Sviptingar í bandarísku réttarkerfi

Úrskurður Hæstaréttar í máli Dobbs markar tímamót.
Úrskurður Hæstaréttar í máli Dobbs markar tímamót. AFP

Ný lög sem banna þungunarrof eða setja því verulegar skorður tóku gildi í þrettán ríkjum Bandaríkjanna, nánast samstundis eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úrskurð í máli Dobbs gegn Jackson Women‘s Health Organization, sem sló því föstu að konur hefðu ekki stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs.

Með þessu hnekkti dómurinn hinni frægu niðurstöðu í máli Roe gegn Wade frá árinu 1973 og Casey frá árinu 1992 sem viðurkenndu fyrrgreindan rétt.

Í bandarísku stjórnarskránni er ekki sérstakt ákvæði um friðhelgi einkalífs, líkt og í 71. gr. þeirrar íslensku og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Hins vegar hefur verið rökstutt í Bandaríkjunum að þessi réttur felist í stjórnarskránni, sem var rituð árið 1787.

Dr. Hafsteinn Dan Kristjánsson, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands, segir að dómaframkvæmd hafi mótast um ýmis atriði, til dæmis í Griswold og Eisenstadt um réttinn til getnaðarvarna, Obergefell gegn Hodges um hjónabönd samkynhneigðra, Lawrence um réttinn til að stunda kynlíf með samþykki í einkarými sínu og Loving gegn Virginia um hjónabönd fólks af ólíkum kynþáttum.

Dómararnir sem kenndir eru við íhaldssamari arm réttarins. Í efri …
Dómararnir sem kenndir eru við íhaldssamari arm réttarins. Í efri röð frá vinstri: John Roberts, Clarence Thomas og Samuel Alito. Í neðri röð frá vinstri: Neil Gorsuch, Brett Kavanaugh og Amy Coney Barrett. John Roberts skilaði séráliti en studdi álit meirihlutans í meginatriðum. AFP

Forseti réttarins vildi ganga skemur

„Með Dobbs er Roe og Casey hnekkt á þeim grundvelli að alríkisstjórnarskráin kveði ekki á um réttinn til þungunarrofs, hvorki berum orðum né sem hluti af vernd annarra ákvæða. Sú niðurstaða er studd atkvæðum fimm dómara sem oft eru kenndir við íhaldssama arm réttarins,“ segir Hafsteinn. 

Í atkvæði meirihlutans, sem ritað er af Samuel Alito, er því haldið fram að niðurstaðan í Roe hafi verið bersýnilega röng í upphafi og byggst á einstaklega veikburða rökum. Telur meirihlutinn að tími sé kominn til að skila málefninu aftur til lýðræðislega kjörinna fulltrúa.

„Afleiðingin af þessum dómi er sú að rétturinn nýtur ekki verndar alríkisstjórnarskrárinnar. Aftur á móti gæti hann notið verndar stjórnarskráa einstakra ríkja. Þá kemur það í hlut löggjafans, annað hvort í ríkjunum eða á alríkisstiginu, að setja lög um efnið,“ segir Hafsteinn Dan. Forseti réttarins, John Roberts, vildi þó ganga skemur og ekki hnekkja dómafordæmunum að öllu leyti, að sögn Hafsteins. Hann studdi þó niðurstöðuna varðandi þau lög sem voru undir í málinu.

Herðatré hafa verið áberandi í mótmælum vegna úrskurðarins.
Herðatré hafa verið áberandi í mótmælum vegna úrskurðarins. AFP

Mismunandi túlkanir

Niðurstöðu meirihlutans var harðlega mótmælt í sératkvæði þriggja dómara, sem stundum eru kenndir við frjálslyndan arm réttarins. Niðurstöður meiri- og minnihlutans eru að hluta til reistar á mismunandi aðferðafræði við túlkun stjórnarskrárinnar.

„Meirihlutinn bendir á að réttinn sé ekki að finna berum orðum í stjórnarskránni og heldur því fram að hann sé ekki hluti af öðrum víðtækari rétti, aðallega friðhelgi einkalífs, eins og sá réttur nýtur verndar. Við túlkun á því ákvæði, lítur meirihlutinn meðal annars til sögulegrar skýringar og hefða og heldur því fram að rétturinn hafi ekki verið til áður en Roe var kveðinn upp,“ segir hann. Þá komi regla um skuldbindingargildi dóma Hæstaréttar, stare decisis-reglan, ekki í veg fyrir að fordæmunum sé hnekkt.

Byggist sú afstaða á ýmsum rökum en meðal þeirra eru að niðurstaðan í Roe hafi verið bersýnilega röng og að konur hafi ekki reitt sig á réttinn eða skipulagt líf sitt með vísan til hans. Frjálslyndu dómararnir voru á annarri skoðun og töldu að að túlka ætti stjórnarskrána í samræmi við aðstæður á hverjum tíma. „Slík sjónarmið eru oft kennd við kenningar um breytilega skýringu stjórnarskráa. Þá telur minnihlutinn að stare decisis-reglan mæli gegn því að hnekkja fordæmunum. Halda þeir því fram að dómur meirihlutans sendi alvarlegt rafstuð í réttarkerfið.“

Leiddar hafa verið líkur að því að ýmis önnur réttindi séu í hættu, fyrst Hæstiréttur fór þá leið að snúa gömlu fordæmi á borð við Roe gegn Wade. Hafsteinn segir í samtali við Morgunblaðið í dag að minnihlutinn hafi bent á að þessi réttindi séu samofin og byggist á sama grunni og Roe. Miðað við aðferðafræðina í Dobbs sé hægt að nálgast ýmsa aðra dóma með sama hætti og Roe.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert