Vladimír Pútín Rússlandsforseti vill enn ná meirihluta landsvæðis Úkraínu, að sögn bandarísku leyniþjónustunnar.
Rússneskar hersveitir eru aftur á móti svo veikburða að bandarísk stjórnvöld meta það sem svo að þær séu einungis færar um mjög rólega landvinninga.
Það þýðir að stríðið gæti varað í langan tíma, að sögn Avrilar Haines, yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar.
Í mars einbeittu rússneskar hersveitir sér að því að nýju að hertaka Donbas-svæðið eftir að þeim hafði mistekist að ná Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, og fleiri borgum á sitt vald.
Haines segir markmið Pútíns enn þau sömu og í upphafi átakanna: Að leggja undir sig sem stærstan hluta Úkraínu.
Hún segir þó ólíklegt að hann nái því markmiði sínu í bráð.