Helstu bandamönnum Trump verið stefnt

Lindsey Graham og Rudy Guiliani.
Lindsey Graham og Rudy Guiliani. Samsett mynd

Sér­stak­ur dóm­stóll í Banda­ríkj­un­um, sem rann­sak­ar nú til­raun­ir Don­alds Trump, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna, til að snúa við úr­slit­um í for­seta­kosn­ing­un­um 2020 í Georgíu-ríki, hef­ur stefnt nokkr­um af helstu banda­mönn­um Trump.

CNN grein­ir frá.

Á meðal banda­mann­anna eru fyrr­ver­andi lög­fræðing­ur hans, Rudy Guili­ani og öld­unga­deild­arþingmaður­inn Linds­ey Gra­ham, sam­kvæmt dóms­skjöl­um.

Þá hef­ur hinum ýmsu lög­fræðileg­um álits­gjöf­um Trump, líkt og John Eastman, Jenna Ell­is, Cleta Mitchell og Kenn­eth Chese­bro, einnig verið stefnt.

Fani Will­is, héraðssak­sókn­ari í Fult­on-sýslu, hef­ur stýrt rann­sókn­inni sem snýr að gjörðum Trump í Georgíu-ríki. Nokkr­um emb­ætt­is­mönn­um rík­is­ins hef­ur nú þegar verið stefnt og þeir borið vitni.

Leita eft­ir vitn­is­b­urðum úr innsta hring

Dóm­stóll­inn leit­ar nú eft­ir vitn­is­b­urðum frá fólki í innsta hring Trumps en Will­is hef­ur verið að rann­saka ýmsa hugs­an­lega glæpi, þar á meðal kosn­inga­svik, rang­ar yf­ir­lýs­ing­ar, sam­særi, fjár­kúg­un og hót­an­ir tengd­ar kosn­inga­stjórn. Dóm­stóll­inn gef­ur ekki út ákær­ur held­ur safn­ar sönn­un­ar­gögn­um og gef­ur út skýrslu um hvort að Trump eða ein­hver af banda­mönn­um hans skuli verða ákærður.

Dóm­stóll­inn mun vilja heyra frá Gra­ham vegna sím­tals sem hún átti við Brad Raffen­sper­ger, inn­an­rík­is­ráðherra Georgíu-rík­is, í kjöl­far kosn­ing­anna 2020 þar sem hún á að hafa spurt hann um mögu­leik­ann á að end­ur­skoða ákveðin utan­kjör­fund­ar­at­kvæði í Georgíu til að kanna mögu­leik­ann á hag­stæðari niður­stöðu fyr­ir Trump.

Hélt því fram að kosn­inga­svik hafi átt sér stað

Giuli­ani er stefnt í tengsl­um við vitn­is­b­urð sinn fyr­ir þing­mönn­um í Georgíu­ríki í des­em­ber 2020. Þar bar hann vitni og lagði fram svo­kallaðar sann­an­ir þess efn­is að kosn­inga­svik hefði farið fram. Þrátt fyr­ir að það hafi verið afsannað, hélt hann því enn fram að kosn­inga­svik hefði átt sér stað.

„Það eru vís­bend­ing­ar um að fram­koma og vitn­is­b­urður vitn­is­ins við yf­ir­heyrsl­una hafi verið hluti af sam­ræmdri áætl­un Trump-her­ferðar­inn­ar til að hafa áhrif á úr­slit kosn­ing­anna í nóv­em­ber 2020 í Georgíu og víðar,“ seg­ir í dóms­skjöl­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert