„Þetta er methiti, tíu stig í Ölpunum. Þetta er bara hrikalegt á þessu slóðum,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Mér skilst að þetta sé nokkuð óvenjulegt. Á Ítalíu eru miklir þurrkar og engisprettufaraldur í kjölfarið. Áin Pó var komin niður í 20% af því sem hún er venjulega. Þetta er háalvarlegt mál, vatnsskortur og langvarandi þurrkar,“ segir Þorsteinn.
Hitabylgjan sem geisar nú í vesturhluta Evrópu hefur eflaust hvergi valdið meiri vandræðum en á Ítalíu. Snjóflóð varð að minnsta kosti sjö að bana en þverrandi líkur eru taldar á því að nokkur af þeim 14 manns sem er saknað finnist á lífi. Stjórnvöld þar í landi hafa lýst yfir neyðarástandi í fimm héruðum vegna þurrka.
„Það koma vissulega svona tímabil með miklum hita og þurrkum í Evrópu en það nær sjaldan til okkar. Það er litlar breytingar að sjá á næstunni í Evrópu en gæti aðeins kólnað á Íslandi,“ segir Þorsteinn.