Borgarstjóri á Filippseyjum hefur fyrirskipað að þeir sem sinna þjónustustörfum hjá borginni skuli brosa, ellegar eiga þeir á hættu að vera sektaðir. Með þessu vill hann bæta þjónustustig borgarinnar.
Aristotle Anguirre kynnti í þessum mánuði til sögunnar „brosstefnuna“ eftir að hafa tekið við embætti í borginni Mulanay í héraðinu Quezon á eyjunni Luzon.
Fylgja skal stefnunni „á meðan verið er að þjóna fólki til að auka einlægni með því að sýna fram á rólegt og vinalegt andrúmsloft“, sagði í fyrirskipuninni.
Að sögn Aguirre var þetta ákveðið til að bregðast við kvörtunum frá heimamönnum, sérstaklega kókoshneturæktendum og sjómönnum, vegna óvinsamlegs viðmóts í þeirra garð er þeir mættu í ráðhúsið til að greiða skatta eða biðja um aðstoð.