Sakar Vesturlönd um að kynda undir stríðinu

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði að stjórnvöld í Úkraínu gætu …
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði að stjórnvöld í Úkraínu gætu bundið enda á stríðið. AFP

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði í dag að Vesturlönd yrðu að samþykkja að stöðva stríðið í Úkraínu til að forðast kjarnorkustyrjöld og krafðist þess að yfirvöld í Úkraínu samþykki kröfur Rússa.

„Við verðum að hætta, ná samkomulagi, binda enda á þetta klúður, aðgerðir og stríð í Úkraínu,“ sagði forsetinn í viðtali við AFP-fréttastofuna.

„Við skulum hætta og þá munum við finna út hvernig við getum haldið áfram að lifa. Það er engin þörf á að ganga lengra. Lengra liggur hyldýpi kjarnorkustríðsins. Það er engin þörf á að fara þangað.“

Hvatti Úkraínumenn til að setjast við samningaborðið

Lúkasjenkó, einn helsti bandamaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sakaði Vesturveldin um að sækjast eftir átökum við Rússland og ögra stríðinu í Úkraínu. „Þið hafið kynt undir stríðinu og haldið því áfram,“ sagði hann.

Lúkasjenkó sagði að stjórnvöld í Úkraínu gætu bundið enda á stríðið með því að hefja viðræður við Rússa á ný og samþykkja kröfur þeirra.

Hvatti hann úkraínsk stjórnvöld til að „setjast við samningaborðið og samþykkja að þau muni aldrei ógna Rússlandi“ og sagði að þau yrðu að sætta sig við tap á landsvæði sem Rússar hafa þegar hernumið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka