Úkraínuher fær vopn fyrir 110 milljarða

Innrás Rússa hófst 24. febrúar.
Innrás Rússa hófst 24. febrúar. AFP

Bandaríkin hyggjast senda vopn til Úkraínu fyrir um 775 milljónir dala eða sem samsvarar um 110 milljörðum króna, til þess að hjálpa Úkraínumönnum að snúa vörn í sókn. Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu í gær.

Yfirmaður hjá Pentagon tjáir blaðamönnum að í vopnasendingunni sé meðal annars fjöldi háþróaðra loftskeyta, öryggisdrónar, sprengjuvörpur og búnaður sem gerir jarðsprengjur óvirkar.

Nítjánda sendingin

Nýja sendingin, sem er sú nítjánda frá því stríðið hófst í febrúar, kemur á sama tíma og Úkraínumenn hafa verið að ná með góðum árangri að fella niður skotmörk langt fyrir aftan línur Rússa með vopnum frá vinveittum þjóðum.

Tugir rússneskra herstöðva hafa fallið frá því um miðjan júní.

Nýlega varð rússneskur herflugvöllur á Krímskaga fyrir gífurlegum skemmdum en talið er að loftskeyti Úkraínumanna hafi hæft völlinn.

Sérfræðingar telja gagnárás vera í bígerð.
Sérfræðingar telja gagnárás vera í bígerð. AFP

Tilbúin að snúa vörn í sókn

Varnarmálasérfræðingar telja að þessi atvik gæti bent til þess að yfirvöld í Úkraínu séu tilbúin að snúa vörn í sókn og endurheimta yfirtekin landsvæði.

Nýja vopnasendingin virðist vera fyrir mögulega gagnárás Úkraínumanna, segir varnarmálasérfræðingurinn og prófessorinn Phillips O'Brien á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert