Eitraðir þörungar hafa fundist í Oder-ánni sem rennur meðal annars um Pólland og Þýskaland og eru taldir skýra rúmlega 100 tonn af dauðum fiski sem fundist hefur í ánni frá því í júlí.
Viðsjár hafa síðan verið vaktar milli landanna og hafa þýsk stjórnvöld sakað þau pólsku um að bregðast skyldu sinni til að tilkynna um málið og bregðast strax við.
„Rannsóknir sem nú hafa verið framkvæmdar sýna að eitraðir þörungar af gerðinni Prymnesium Parvum eru í ánni,“ tilkynnir Jacek Ozdoba, aðstoðarumhverfisráðherra Póllands, á Twitter.
Talsmaður þýska umhverfisráðuneytisins, Andreas Kuebler, segir líklegast að mikið magn téðra þörunga hafi drepið fiskana og bætti því við að óeðlilega mikið saltmagn í ánni væri skýringin á myndun þörunganna en það gæti eingöngu komið til vegna iðnaðarúrgangs í ánni.