Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að 10 þúsund bandaríkjadalir verði skrifaðir af skuldum meirihluta bandarískra ríkisborgara sem standa enn í ströngu við að greiða námslánin sín vegna háskólanáms.
Samkvæmt áætlun Biden munu tíu þúsund dalir vera afskrifaðir af skuldum vegna námslána þeirra sem þéna minna en 125 þúsund dali á ári. 125 þúsund dalir nema um sautján og hálfri milljón íslenskra króna.
„Til að standa við kosningaloforðin mín er ríkisstjórnin að tilkynna áætlun sem mun létta undir með millistéttarfjölskyldum,“ sagði Biden í dag, þremur mánuðum fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum, en búist er við að þessi tilkynning muni veita Demókrataflokknum byr undir báða vængi fyrir komandi kosningabaráttu.
Margir demókratar telja að áætlun Biden sé ekki nægileg og myndu heldur vilja sjá skuldirnar afskrifaðar að öllu leyti. Meðalskuld þeirra sem hafa lokið háskólanámi í Bandaríkjunum er 25 þúsund dalir.