Norskir dvergdrónar til Úkraínu

Margur er knár þótt hann sé smár. Svarta vespan, eða …
Margur er knár þótt hann sé smár. Svarta vespan, eða Black Hornet 3, er ekki fyrirferðarmikil en notagildið þó ótvírætt þegar leita þarf að óvininum í húsarústum, skúmaskotum og hliðargötum. Ljósmynd/FLIR Systems

„Svarta vespan“ er ekki nýjasta ógnin í skordýraflóru Noregs, öðru nær. Þar er á ferð dvergdróninn „Black Hornet 3“ sem framleiddur er hjá Prox Dynamics sem svo hét, í Eggemoen, rétt utan við bæinn Hønefoss í Noregi.

Nú heitir fyrirtækið hins vegar FLIR Unmanned Aerial Systems AS í kjölfar kaupa bandaríska fyrirtækisins FLIR árið 2017 og var kaupverðið 1,1 milljarður norskra króna, jafnvirði tæplega 16 milljarða íslenskra króna.

Svarta vespan vegur um 30 grömm og er tíu sentimetra löng og ber því hvorki flugskeyti né klasasprengjur. Þrátt fyrir það hafa Bretar og Norðmenn keypt svartar vespur fyrir 90 milljónir norskra króna, upphæð sem samsvarar 1,3 milljörðum íslenskra króna, og sent til Úkraínu til afnota fyrir þarlent herlið.

Þolir válynd veður

Svarta vespan er búin myndavél sem nota má hvort heldur sem er í björtu eða myrkri. Hún er nánast hljóðlaus, fjarstýringin með henni vegur innan við kílógramm og vespunni má stjórna í allt að tveggja kílómetra fjarlægð. Þá þolir hún válynd veður og hvort tveggja nístingskulda og háan hita.

Í Úkraínu nýta hermenn hana í borgum þar sem barist er á götum og hús úr húsi. Þeir leita að óvininum með þessu örsmáa tæki sem flogið getur gegnum lítil op, sprungur í veggjum og þekkir fáar hindranir.

Auk sjálfra dvergdrónanna og fylgihluta senda Bretar og Norðmenn varahluti auk þess að kenna á tækið. Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að Úkraínumenn hafi lengi óskað eftir drónanum smávaxna. „Nú styttist í að við klárum lagerinn okkar [norska hersins] svo þá munum við útvega drónann beint frá framleiðanda,“ segir ráðherra enn fremur.

Tekur hann það sérstaklega fram að drónaþurrð norska hersins veiki ekki varnir landsins. „Við metum sífellt hvað við getum gefið með góðu móti og hvað við verðum að hafa öryggis okkar vegna.“

NRK
NRKII (framleiðsla Black Hornet 3 í Noregi)
Teknisk ukeblad
Fréttatilkynning ríkisstjórnarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert