Risavaxið hagl varð ungbarni að bana

Óveðrið olli miklum skemmdum í Girona-héraði í Katalóníu. Mynd úr …
Óveðrið olli miklum skemmdum í Girona-héraði í Katalóníu. Mynd úr safni. Ljósmynd/Kari Anne Overskeid

Tuttugu mánaða gömul stúlka lést á Spáni eftir að hafa fengið hagl í höfuðið í gærkvöldi. Um það bil fimmtíu aðrir hafa tilkynnt um meiðsli, allt frá marblettum yfir í beinbrot, en mikið óveður skall á Girona-hérað í Katalóníu sem varaði í tíu mínútur.

Eitt haglið mældist tíu sentímetrar í þvermál sem er stærsta hagl sem sést hefur á svæðinu síðan árið 2002, að sögn veðurfræðings.

Stúlkan var flutt á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir haglinu, en lést síðar af sárum sínum, að því er BBC greinir frá.

Óveðrið olli miklum skemmdum í héraðinu. Þök eyðilögðust víða, rafmagnssnúrur féllu og rúður brotnuðu. Samkvæmt veðurstofu Katalóníu geta haglél komið allt árið, en eru oftast skráð frá mars til september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert