Setja verðþak á olíu frá Rússlandi

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, er meðal þeirra sjö fjármálaráðherra G7-ríkjanna …
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, er meðal þeirra sjö fjármálaráðherra G7-ríkjanna sem hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. AFP

Fjármálaráðherrar G7-ríkjanna ætla að setja á sérstakt verðþak á olíu sem keypt er frá Rússlandi til að takmarka tekjur Rússlands og möguleika þeirra til að fjármagna stríð sitt gegn Úkraínu. Þetta kemur fram í samkomulagi ráðherrana iðnríkjanna sjö sem mynda G7-hópinn.

Í tilkynningu frá fjármálaráðherrum ríkjanna segir að aðgerðirnar séu einnig hannaðar til að draga úr áhrifum stríðsins á alþjóðlegt orkuverð, aðallega í fátækari löndum.

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir verðþakið mikilvægt skref í átt að því að ná bæði niður þrýstingi á orkuverð í heiminum og að draga úr tekjum Rússlands til að styðja við stríð þeirra.

Meðal annars er horft til þess að heimila aðeins olíukaupendum að eiga viðskipti við Rússland sé olían keypt á eða undir verðþakinu. Á meðal annars að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti flutt olíuna frá Rússlandi nema uppfylla þessi skilyrði.

Ekki hefur enn verið greint frá því hvað þakið verði, en í yfirlýsingu ráðherrana segir að það verði gert opinberlega og á skýran og gegnsæjan hátt.

Áður en yfirlýsing ráðherrana var send út tilkynntu yfirvöld í Moskvu að tilraunir til að setja á verðþak yrði mætt með aðgerðum Rússa. Sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda þar í landi að fyrirtæki sem myndu vinna samkvæmt verðþakinu myndu ekki verða viðskiptavinir rússneskra olíufyrirtækja.

Sagði Peskov jafnframt að innleiðing verðþaks myndi valda óstöðugleika á olíumörkuðum.

Evrópusambandið hefur þegar tilkynnt að það hyggist banna innflutning á hráolíu frá Rússlandi frá og með 5. desember.

G7-ríkin samanstanda af Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Kanada, Japan og Þýskalandi. Þá hefur Evrópusambandið einnig aðild án þess að vera talið sérstaklega með sem aðili hópsins.

Þrátt fyrir að í hópnum séu mörg af stærstu iðnríkjum heims er þar ekki að finna bæði Kína og Indland, en þau eru bæði stór viðskiptalönd Rússlands og óvíst að þau muni fylgja hugmyndum G7-ríkjanna, en bæði Kína og Indland hafa hingað til ekki tekið undir viðskiptaþvinganir vesturvelda gegn Rússlandi vegna stríðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka