Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sakaði Joe Biden Bandaríkjaforseta um að vera „óvin bandaríska ríkisins“ og fyrir að beita bandarísku alríkislögreglunni, FBI, gegn sér.
Trump lét ásakanirnar falla í ávarpi sem hann hélt fyrir þúsundir stuðningsmanna í Wilkes-Barre í Pennsylvaínu-ríki.
Húsleit var framkvæmd á heimili fyrrverandi forsetans í ágúst þar sem hann var grunaður um að hafa tekið trúnaðargögn sem eru til þess fallin að ógna þjóðaröryggi.
Í ávarpinu í gær sagði Trump húsleitina vera dæmi um verstu valdbeitingu ríkisstjórnar í sögu Bandaríkjanna.
„Það var ekki bara heimili mitt sem var ráðist inn á, heldur var ráðist á vonir og drauma allra borgara sem ég hef barist fyrir síðan ég kom niður gullna stigann árið 2015, með von um að verða fulltrúi fólksins,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína og uppskar fyrir vikið mikil læti.
Þingkosningar í Bandaríkjunum fara fram í nóvember en þá mun koma í ljós hvort að Demókratar haldi meirihluta þingmanna.
Fulltrúar Demókrata og Repúblikana hafa skotið föstum skotum sín á milli í aðdraganda kosninganna en á föstudaginn sakaði Biden stuðningsmenn forvera síns um að vera ógn við lýðræði landsins.