Liz Truss bar sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í Bretlandi og verður þar með næsti forsætisráðherra landsins.
Þetta var tilkynnt rétt í þessu.
Atkvæðagreiðslunni lauk á föstudaginn þar sem kosið var á milli Truss, sem er utanríkisráðherra, og Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands.
„Það er heiður að vera kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins,“ sagði Truss, eftir að úrslitin voru tilkynnt.
Greidd voru 172.437 atkvæði og var kjörsókn 82,6%. Truss hlaut 81.326 atkvæði, eða um 57%, á móti 60.399 atkvæðum Sunak.
Boris Johnson, sem hefur starfað sem forsætisráðherra frá því hann sagði af sér embætti í byrjun júlí, mun færa Elísabetu Englandsdrottningu formlegt uppsagnarbréf sitt á morgun.
Truss verður þriðja konan til að gegna embætti forsætisráðherra í sögu Bretlands.
I am honoured to be elected Leader of the Conservative Party.
— Liz for Leader (@trussliz) September 5, 2022
Thank you for putting your trust in me to lead and deliver for our great country.
I will take bold action to get all of us through these tough times, grow our economy, and unleash the United Kingdom’s potential. pic.twitter.com/xCGGTJzjqb
Í ræðu sinni þakkaði Truss Boris Johnson fyrir að hafa staðið uppi í hárinu á Vladimír Pútín Rússlandsforseta, klárað Brexit, komið bóluefni við kórónuveirunni til almennings og fyrir að „rústa Jeremy Corbyn“ í kosningum árið 2019.
Hún sagðist ætla að standa við gefin loforð í kosningabaráttunni, meðal annars að lækka skatta og efla breskan efnahag.
Truss kvaðst jafnframt ætla að „standa sig í stykkinu“ vegna hækkandi orkuverðs í landinu og framboðs af orku.