Truss frystir orkureikninga

Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands.
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Nýskipaður forsætisráðherra Bretlands, Liz Truss, tilkynnti í dag að breskir orkureikningar skyldu frystir í tvö ár.

Ríkisstjórnin sagðist einnig myndu endurskoða áætlanir sem stefndu að lagalega bundnu markmiði sínu um að draga algjörlega úr kolefnislosun fyrir árið 2050 til þess að sjá til þess að þörfum fyrirtækja og neytenda yrði mætt.

Heimili í Bretlandi standa nú frammi fyrir 80 prósenta hækkun á gas- og rafmagnsreikningum í næsta mánuði vegna hækkunar á orkuverði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að ráðstafanirnar muni kosta tugi milljarða punda en Truss og nýr fjármálaráðherra Kwasi Kwarteng fullyrtu að þær myndu hafa verulegan ávinning fyrir hagkerfið og draga úr verðbólgu um fjögur til fimm prósentustig.

Hætta við að banna umdeilda aðferð

Í yfirlýsingu kom einnig fram að hætt yrði við að banna bergbrot (e. fracking) en það er umdeild aðferð til að bora eftir jarðefnaeldsneyti.

Truss sagði að „áratugir af skammtímahugsun í orkumálum“ og það að Bretar tryggðu ekki orkubirgðir hefðu gert það að verkum að þeir væru viðkvæmir fyrir verðhækkununum.

„Óvenjulegar áskoranir kalla á óvenjulegar ráðstafanir til að tryggja að Bretland sé aldrei í þessari stöðu aftur,“ sagði hún.

Kwarteng sagði að frystingin þýddi að áhyggjufull heimili og fyrirtæki „gætu nú andað léttar“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert