Þýski herinn verði sá best búni í Evrópu

Olaf Scholz á blaðamannafundi í morgun.
Olaf Scholz á blaðamannafundi í morgun. AFP/Jens Schlueter

Þjóðverjar eru tilbúnir til að taka að sér leiðtogahlutverk við að tryggja öryggi í Evrópu. Þetta sagði Olaf Scholz, kanslari landsins, og hét því að umbreyta her landsins í þann „best búna“ í heimsálfunni.

Scholz sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta „stærstu ógnina“ sem stafar að NATO og að Evrópa þurfi að vera tilbúin til að takast á við þá áskorun.

„Við viljum að það sé alveg ljóst: Þýskaland er tilbúið til að taka að sér leiðtogahlutverk þegar kemur að öryggi í okkar heimsálfu,“ sagði Scholz á herráðstefnu.

„Sem fjölmennasta landið með öflugasta efnahaginn og sem land í miðri álfunni, þá verður herinn okkar að vera hornsteinn hefðbundinna varna í Evrópu, sá best búni í Evrópu.“

Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýskalands.
Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýskalands. AFP/Jens Schlueter

Eftir tvær heimsstyrjaldir hafa Þjóðverjar ávallt stigið varlega niður fæti á alþjóðlega sviðinu þegar hefur komið að deilum og hernaðarlegum málum.

Scholz sagði þýska herinn hafa í of langan tíma tekið að sér hlutverk á borð við „að bora fyrir brunnum, tryggja mannúðaraðstoð, bregðast við flóðum og að aðstoða við bólusetningar á meðan á faraldrinum stóð“.

„En það er ekki ykkar helsta verkefni,“ sagði hann. „Helsta verkefni Bunderswehr (þýska hersins) er að verja frelsi í Evrópu.“

Nokkrum dögum eftir að rússneskri hermenn réðust inn í Úkraínu tilkynnti Scholz um stofnun 100 milljarða evra sjóðs til að styrkja varnir Þýskalands og snúa við áratuga langri undirfjármögnun hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert