Selenskí við Rússa: Verðið drepnir einn af öðrum

Volodimír Selenskí ávarpaði þjóð sína í kvöld.
Volodimír Selenskí ávarpaði þjóð sína í kvöld. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hét því í kvöld að her landsins myndi brátt endurheimta fleiri svæði í Austur-Úkraínu úr klóm rússneska hersins.

„Undanfarna viku hafa fleiri úkraínskir fánar verið reistir á Donbas-svæðinu. Þeir verða enn fleiri að viku liðinni,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu í kvöld.

Ávarpið kom í kjölfar tilkynningar frá Kænugarði, þess efnis að úkraínskt herlið hefði hafið för sína inn í borgina Líman. Varnarmálaráðuneytið birti um leið myndskeið þar sem sjá mátti hermenn flagga gulum og bláum fána Úkraínu í borginni.

Selenskí vék máli sínu meðal annars að rússneska forsetanum.
Selenskí vék máli sínu meðal annars að rússneska forsetanum. AFP

Sá sem hóf þetta allt

Rússneska varnarmálaráðuneytið kveðst hafa dregið herlið sitt til baka úr borginni og að hagstæðari varnarlínum. Áður höfðu Úkraínumennirnir umkringt borgina.

Selenskí gaf Rússum þau skilaboð að þeir yrðu drepnir, einn af öðrum, svo lengi sem Vladimír Pútín héldi áfram um stjórnartaumana í Kremlinni.

„Þangað til þið leysið vandann við þann sem hóf þetta allt, þann sem byrjaði þetta fáránlega stríð gegn Úkraínu, þá verðið þið myrtir einn af öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert