Frambjóðandi repúblikana sakaður um dýraníð

Mehmet Oz.
Mehmet Oz. AFP

Mehmet Oz, frambjóðandi repúblikanaflokksins í Pennsylvaníu til öldungadeildar Bandaríkjaþings, er sakaður um að hafa staðið að baki rannsóknum í Columbia-háskóla á árunum 1989 til 2010 sem leiddu til þess að fjöldi dýra lét lífið á kvalarfullan hátt, þar á meðal yfir 300 hundar.

Oz, sem leiddi rannsóknina, framkvæmdi rannsóknir á að minnsta kosti 1.027 lifandi dýrum, þ.e. á hundum, svínum, kálfum, kanínum og minni nagdýrum, að því er bandaríski miðillinn Jezebel greinir frá.

Aflífaður mánuði síðar

Catherine Dell‘Orto greindi frá rannsóknum Oz árið 2000 sem hún segir fela í sér miklar þjáningar fyrir dýrin sem og að rannsóknir Oz stæðust ekki lög um velferð dýra. Lögin kveða sérstaklega á um að við rannsóknir skuli notast við verkjastillandi lyf eða að aflífa skuli dýrin. Ekki skuli notast við lömunarlyf án svæfingar né stunda rannsóknir margsinnis á sama dýrinu.

Á meðal þess sem Dell‘Orto greindi frá máli sínu til stuðnings var að fjölmargar tilraunir hafi verið gerðar á hundi í um það bil mánuð. Hundinum hafi síðar verið lógað en tilraunir þær sem voru viðhafðar á honum voru síðar meir taldar ónothæfar. Þá hafði heilu goti af hvolpum verið drepið er þeir voru sprautaðir með útrunnum lyfjum. Síðar hafi þeim verið hent í ruslapoka með lifandi hvolpum.

Í maí 2004 var háskólanum gert skylt af hálfu Bandarísku umhverfisstofnunarinnar (USDA) að greiða sekt upp á 2.000 dollara fyrir að hafa farið á skjön við lög um velferð dýra með framangreindri rannsókn Oz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert