Bandaríska leyniþjónustan hefur fengið upplýsingar um það að innanbúðarmaður í innsta hring embættismanna Vladimír Pútíns Rússlandsforseta hafi gagnrýnt forsetann opinskátt vegna stríðsrekstursins í Úkraínu.
Þessar upplýsingar þóttu það mikilvægar að þær voru tilkynntar Joe Biden Bandaríkjaforseta á daglegum upplýsingafundi hans.
Frá þessu greinir dagblaðið Washington Post í dag.
Opinber gagnrýni háttsetts embættismanns þykir sýna eflaust betur en nokkuð annað þreytuna og óánægjuna með framgang þessa stríðs sem hefur litlu skilað nema slæmu orðspori Rússlands.
Leiftursókn Úkraínumanna í hernumin svæði Rússa í Úkraínu þvinguðu Pútín til að koma á herskyldu í landinu, sem hefur ekki aflað honum neinna vinsælda heima fyrir.
Þrátt fyrir kosningar og yfirtöku leppsvæða Rússa í Úkraínu, með tilheyrandi hátíðahöldum í Moskvu, þá virðist rússneskur almenningur farinn að setja spurningarmerki við stríðsreksturinn.
Í upplýsingum bandarísku leyniþjónustunnar kemur fram að téður embættismaður hafi lýst yfir óánægju sinni með slælega stjórnun í stríðinu og mistök sem hafa verið gerð í kjölfarið.
Ekki hafa fengist neinar upplýsingar um hver viðkomandi embættismaður er, en þó mun nafn hans vera í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar.
Talið er að meiri sundrungu sé nú að finna í nánasta hring Pútíns en áður á 22 ára valdatíð hans.