Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lýst Úkraínumenn ábyrga fyrir sprengingu er varð í flutningabíl á brú yfir Kertsj-sund í gær, sem nær frá Rússlandi til Krímskaga.
Kom þetta fram á fundi forsetans með yfirmanni Rannsóknarnefndar Rússlands nú fyrir skemmstu.
„Þeir sem standa á bak við árásina tilheyra leyniþjónustu Úkraínu,“ sagði hann á fundinum, en stjórnvöld í Kreml hafa birt upptöku af honum.
Úkraínumenn hafa þó enn sem komið er ekki lýst sprengingunni á hendur sér.
“It was a bridge the Kremlin had built. Just after six in the morning it was attacked.” Our report for @BBCNews on the huge explosion on the bridge between Russia and Crimea. Producer @BBCWillVernon Camera/edit @AntonChicherov. pic.twitter.com/hzqgFRwbYc
— Steve Rosenberg (@BBCSteveR) October 8, 2022
„Það leikur enginn vafi á því að þessi hryðjuverk beinast gegn almennum borgurum Rússlands,“ sagði Pútín.
Þrír létust í sprengingunni og logaði eldur á brúnni um nokkra hríð, en opnað var fyrir umferð á hluta hennar í gær.
Eftir innrás Rússalands í Úkraínu hefur brúin gegnt lykilhlutverki sem stofnæð fyrir flutning hergagna frá Rússlandi til hersveita Rússa á vettvangi. Einkum fyrir þær hersveitir sem staddar eru í suðurhluta Úkraínu, en liðsauki við herinn hefur einnig farið sömu leið.