Bandalagsríki NATO ræða í dag hvernig efla megi stuðning við Úkraínu. Þar verða frekari loftvarnir í mestum forgangi.
Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, á blaðamannafundi í dag áður en fundur fulltrúa bandalagsríkjanna hófst.
Eldflaugaárásir Rússa í vikunni, í kjölfar sprengingarinnar á Kertsj-brúnni, hafa hrundið þörfinni fyrir loftvarnir aftur í brennidepil umræðunnar.
Oleksí Resníkov, varnarmálaráðherra Úkraínu, var stuttur í spuna er hann var spurður í morgun hvers hann væntist af fundi ríkjanna.
„Loftvarnarkerfi,“ sagði ráðherrann.
Stoltenberg sagði hryllilegar og handahófskenndar árásir á úkraínskar borgir hafa skilið borgara eftir í valnum og eyðilagt afar mikilvæga innviði.
„Þetta sýnir fram á knýjandi þörf fyrir meiri loftvarnir fyrir Úkraínu. Bandamenn hafa veitt loftvarnir en við þurfum enn meiri varnir. Við þurfum ólíkar tegundir loftvarna,“ sagði hann.