Fyrstu rússnesku hermennirnir eru nú komnir til Hvíta-Rússlands til að sameinast hersveitum þar í landi í þeim tilgangi að styrka varnir við landamærin. Varnarmálaráðherra landsins greindi frá þessu í dag og myndir sem ráðuneytið birti sýna konur í þjóðbúningum taka á móti hermönnunum og afhenda þeim brauð og salt.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sem er náinn samherji Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sagði á mánudaginn að Úkraínumenn væru að undirbúa árás á landsvæði Hvíta-Rússlands. Hann sagði jafnframt að samþykkt hefði verið að safna saman mannskap frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi og mynda sameinaða hersveit á svæðinu.
Lúkasjenkó hefur sakað Pólland, Litháen og Úkraínu um að þjálfa hvítrússneska róttæklinga til að vinna skemmdarverk, hryðjuverk og gera uppreisn gegn herliði Hvíta-Rússlands.
Á fundi G7-ríkjanna á þriðjudag sakaði Volodimír Selenskí, Rússa um að reyna að draga Hvíta-Rússland inn í stríðið. Hann kallaði eftir því að alþjóðlegt rannsóknarteymi færi í eftirlitsferð við landamæri Úkraínu og Hvíta-Rússlands.